1 Fyrri sögu mína, Þeófílus, samdi ég um allt, sem Jesús gjörði og kenndi frá upphafi,
2 allt til þess dags, er hann gaf postulunum, sem hann hafði valið, fyrirmæli sín fyrir heilagan anda og varð upp numinn.
3 Þeim birti hann sig lifandi eftir písl sína með mörgum órækum kennimerkjum, lét þá sjá sig í fjörutíu daga og talaði um Guðs ríki.
4 Er hann var með þeim, bauð hann þeim að fara ekki burt úr Jerúsalem, heldur bíða eftir fyrirheiti föðurins, ,,sem þér,`` sagði hann, ,,hafið heyrt mig tala um.
5 Því að Jóhannes skírði með vatni, en þér skuluð skírðir verða með heilögum anda, nú innan fárra daga.``
6 Meðan þeir voru saman, spurðu þeir hann: ,,Herra, ætlar þú á þessum tíma að endurreisa ríkið handa Ísrael?``
7 Hann svaraði: ,,Ekki er það yðar að vita tíma eða tíðir, sem faðirinn setti af sjálfs sín valdi.
8 En þér munuð öðlast kraft, er heilagur andi kemur yfir yður, og þér munuð verða vottar mínir í Jerúsalem og allri Júdeu, í Samaríu og allt til endimarka jarðarinnar.``
9 Þegar hann hafði þetta mælt, varð hann upp numinn að þeim ásjáandi, og ský huldi hann sjónum þeirra.
10 Er þeir störðu til himins á eftir honum, þegar hann hvarf, þá stóðu hjá þeim allt í einu tveir menn í hvítum klæðum
11 og sögðu: ,,Galíleumenn, hví standið þér og horfið til himins? Þessi Jesús, sem varð upp numinn frá yður til himins, mun koma á sama hátt og þér sáuð hann fara til himins.``
12 Þá sneru þeir aftur til Jerúsalem frá Olíufjallinu, sem svo er nefnt og er í nánd við Jerúsalem, hvíldardagsleið þaðan.
13 Er þeir komu þangað, fóru þeir upp í loftstofuna, þar sem þeir dvöldust: Pétur og Jóhannes, Jakob og Andrés, Filippus, Tómas, Bartólómeus, Matteus, Jakob Alfeusson, Símon vandlætari og Júdas Jakobsson.
14 Allir þessir voru með einum huga stöðugir í bæninni ásamt konunum. María, móðir Jesú, var líka með þeim og bræður hans.
15 Á þessum dögum stóð Pétur upp meðal bræðranna. Þar var saman kominn flokkur manna, um eitt hundrað og tuttugu að tölu. Hann mælti:
16 ,,Bræður, rætast hlaut ritning sú, er heilagur andi sagði fyrir munn Davíðs um Júdas, sem vísaði leið þeim, er tóku Jesú höndum.
17 Hann var í vorum hópi, og honum var falin sama þjónusta.
18 Hann keypti reit fyrir laun ódæðis síns, steyptist á höfuðið og brast sundur í miðju, svo að iðrin öll féllu út.
19 Þetta varð kunnugt öllum Jerúsalembúum, og er reitur sá kallaður á tungu þeirra Akeldamak, það er Blóðreitur.
20 Ritað er í Sálmunum: Bústaður hans skal í eyði verða, enginn skal í honum búa, og: Annar taki embætti hans.
21 Einhver þeirra manna, sem með oss voru alla tíð, meðan Drottinn Jesús gekk inn og út vor á meðal,
22 allt frá skírn Jóhannesar til þess dags, er hann varð upp numinn frá oss, verður nú að gjörast vottur upprisu hans ásamt oss.``
23 Og þeir tóku tvo til, Jósef, kallaðan Barsabbas, öðru nafni Jústus, og Mattías,
24 báðust fyrir og sögðu: ,,Drottinn, þú sem þekkir hjörtu allra. Sýn þú, hvorn þessara þú hefur valið
25 til að taka þessa þjónustu og postuladóm, sem Júdas vék frá til að fara til síns eigin staðar.``Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu.
26 Þeir hlutuðu um þá, og kom upp hlutur Mattíasar. Var hann tekinn í tölu postulanna með þeim ellefu. |