1 Asafs-sálmur. Guð, heiðingjar hafa brotist inn í óðal þitt, þeir hafa saurgað þitt heilaga musteri og lagt Jerúsalem í rústir.
2 Þeir hafa gefið lík þjóna þinna fuglum himins að fæðu og villidýrunum hold dýrkenda þinna.
3 Þeir hafa úthellt blóði þeirra sem vatni umhverfis Jerúsalem, og enginn jarðaði þá.
4 Vér erum til háðungar nábúum vorum, til spotts og athlægis þeim er búa umhverfis oss.
5 Hversu lengi, Drottinn, ætlar þú að vera reiður, á vandlæti þitt að brenna sem eldur án afláts?
6 Hell þú reiði þinni yfir heiðingjana, sem eigi þekkja þig, og yfir konungsríki, er eigi ákalla nafn þitt.
7 Því að þeir hafa uppetið Jakob og lagt bústað hans í eyði.
8 Lát oss eigi gjalda misgjörða forfeðra vorra, lát miskunn þína fljótt koma í móti oss, því að vér erum mjög þjakaðir.
9 Hjálpa þú oss, Guð hjálpræðis vors, sakir dýrðar nafns þíns, frelsa oss og fyrirgef syndir vorar sakir nafns þíns.
10 Hví eiga heiðingjarnir að segja: ,,Hvar er Guð þeirra?`` Lát fyrir augum vorum kunna verða á heiðingjunum hefndina fyrir úthellt blóð þjóna þinna.
11 Lát andvörp bandingjanna koma fram fyrir þig, leys þá sem komnir eru í dauðann, með þínum sterka armlegg,
12 og gjald nágrönnum vorum sjöfalt háðungina er þeir hafa sýnt þér, Drottinn.En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns.
13 En vér, lýður þinn og gæsluhjörð þín, munum lofa þig um eilífð, kunngjöra lofstír þinn frá kyni til kyns. |