1 Filistar höfðu tekið Guðs örk og flutt hana frá Ebeneser til Asdód.
2 Nú tóku þeir Guðs örk og fluttu hana í musteri Dagóns og settu hana við hliðina á Dagón.
3 En er Asdód-menn risu árla morguninn eftir, sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Tóku þeir þá Dagón og settu hann aftur á sinn stað.
4 Og þeir risu árla um morguninn daginn eftir, og sjá, þá lá Dagón á grúfu á gólfinu fyrir framan örk Drottins. Höfuð Dagóns og báðar hendur voru brotnar af honum og lágu á þröskuldinum, bolurinn einn var eftir af Dagón. (
5 Fyrir því stíga prestar Dagóns og allir þeir, sem ganga inn í musteri Dagóns, ekki á þröskuld Dagóns í Asdód, og helst það enn í dag.)
6 Hönd Drottins lá þungt á Asdód-mönnum, hann skelfdi þá og sló þá með kýlum, bæði Asdód og héraðið umhverfis.
7 En þegar Asdód-búar sáu, að þetta var þannig, þá sögðu þeir: ,,Örk Ísraels Guðs skal eigi lengur hjá oss vera, því að hörð er hönd hans á oss og á Dagón, guði vorum.``
8 Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista til sín og sögðu: ,,Hvað eigum vér að gjöra við örk Ísraels Guðs?`` Þeir sögðu: ,,Flytja skal örk Ísraels Guðs til Gat.`` Og þeir fluttu örk Ísraels Guðs þangað.
9 En eftir að þeir höfðu flutt hana þangað, þá kom hönd Drottins yfir borgina með feikna mikilli skelfingu. Hann sló borgarbúa, bæði smáa og stóra, svo að kýli brutust út um þá.
10 Þá sendu þeir Guðs örk til Ekron. En er Guðs örk kom til Ekron, þá kveinuðu Ekroningar og sögðu: ,,Þeir hafa flutt til mín örk Ísraels Guðs til þess að deyða mig og fólk mitt!``
11 Þá gjörðu þeir út sendimenn og söfnuðu saman öllum höfðingjum Filista og sögðu: ,,Sendið burt örk Ísraels Guðs, svo að hún komist á sinn stað og deyði mig ekki og fólk mitt.`` Því að dauðans angist hafði gripið alla borgina. Hönd Guðs lá þar mjög þungt á.Þeir menn, sem eigi dóu, urðu slegnir kýlum, og kvein borgarinnar sté upp til himins.
12 Þeir menn, sem eigi dóu, urðu slegnir kýlum, og kvein borgarinnar sté upp til himins. |