1 Drottinn kallaði á Móse og talaði við hann úr samfundatjaldinu og mælti:
2 ,,Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar einhver af yður vill færa Drottni fórn, þá skuluð þér færa fórn yðar af fénaðinum, af nautum og sauðum.
3 Sé fórn hans brennifórn af nautum, skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust. Skal hann leiða það að dyrum samfundatjaldsins, svo að hann verði Drottni velþóknanlegur.
4 Því næst skal hann leggja hönd sína á höfuð brennifórnarinnar, að hún afli honum velþóknunar og friðþægi fyrir hann.
5 Síðan skal hann slátra ungneytinu frammi fyrir Drottni. En synir Arons, prestarnir, skulu fram bera blóðið, og skulu þeir stökkva blóðinu allt í kring utan á altarið, sem stendur við dyr samfundatjaldsins.
6 Þá flái hann brennifórnina og hluti hana sundur.
7 En synir Arons, prestarnir, skulu gjöra eld á altarinu og leggja við á eldinn.
8 Og synir Arons, prestarnir, skulu raða stykkjunum, höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.
9 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn brenna það allt á altarinu til brennifórnar, eldfórnar þægilegs ilms fyrir Drottin.
10 Sé fórnargjöf sú, er hann fram ber til brennifórnar, af sauðfénaði, af sauðkindum eða geitum, þá skal það, er hann fórnar, vera karlkyns og gallalaust.
11 Og skal hann slátra því við altarið norðanvert frammi fyrir Drottni, en synir Arons, prestarnir, skulu stökkva blóðinu úr því utan á altarið allt í kring.
12 Síðan skal hann hluta það sundur, og skal presturinn raða stykkjunum ásamt höfðinu og mörnum ofan á viðinn, sem lagður er á eldinn, sem er á altarinu.
13 En innýflin og fæturna skal þvo í vatni, og skal presturinn fram bera það allt og brenna á altarinu. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
14 Vilji hann færa Drottni brennifórn af fuglum, þá taki hann til fórnar sinnar turtildúfur eða ungar dúfur.
15 Skal presturinn bera fuglinn að altarinu og klípa af höfuðið og brenna það á altarinu, en blóðið skal kreista út á altarishliðina.
16 Og hann skal taka sarpinn með fiðrinu á og kasta honum við austurhlið altarisins, þar sem askan er látin.Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin.
17 Og hann skal rífa vængina frá, en þó eigi slíta þá af, og skal presturinn brenna hann á altarinu, ofan á viðnum, sem lagður er á eldinn. Er það brennifórn, eldfórn þægilegs ilms fyrir Drottin. |